Auglýsingablaðið

1232. TBL 27. febrúar 2024

Auglýsingablað 1232. tbl. 16. árg. þriðjudaginn 27. febrúar 2024.

 


Sveitarstjórnarfundur
Fundarboð: 628. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 7. mars og hefst hann kl. 8:00. Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.

 


Íþróttamiðstöð Eyjafjarðar auglýsir eftir starfskröftum
*Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar auglýsir 100% starf karlmanns til afleysinga frá maí og fram að áramótum 24/25 að minnsta kosti.
*Sumarstörf í Íþróttamiðstöðinni – tvær stöður kvenna og tvær stöður karla.
*Sumarstörf á tjaldsvæði – tvær 100% stöður í vaktavinnu.
Umsóknarfrestur er til og með 17. mars. Umsóknir, ásamt kynningarbréfi, ferilsskrá og lista yfir meðmælendur skulu sendar á netfangið karlj@esveit.is.
Nánari upplýsingar á www.esveit.is og hjá Karli Jónssyni forstöðumanni íþr.m. í síma 691-6633 á vinnutíma.

 


Ágætu sveitungar – SJÁLFSRÆKT miðvikudaginn kl. 20:00
Lionsklúbburinn Sif þakkar kærlega fyrir stuðninginn í gegnum árin þið eruð búin að vera frábær.
Nú ætlum við að bjóða ykkur að eyða með okkur kvöldstund miðvikudagskvöldið 28. febrúar kl. 20:00 í Félagsborg og hlusta á fyrirlestur um SJÁLFSRÆKT.
Hlökkum til að sjá ykkur og eiga með ykkur skemmtilega stund.
Lionsklúbburinn Sif.

 


Árshátíð miðstigs 2024
Árshátíð miðstigs Hrafnagilsskóla verður haldin í Laugarborg fimmtudaginn 29. febrúar kl. 19:00.
Dagskráin hefst á tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Að því loknu sýna nemendur í 5., 6. og 7. bekk stytta útgáfu af leikritinu ,,Glanni glæpur í Latabæ”. Auk þess að leika, syngja og dansa í sýningunni sjá nemendur m.a. um leikmynd, leikskrá og tæknivinnu.
Að loknum skemmtiatriðum verður boðið upp á hressingu. Síðan verður stiginn dans undir tónlist sem nemendur á miðstigi hafa valið af kostgæfni. Skemmtuninni lýkur kl. 21:15.
Aðgangseyrir er 2.000 kr. fyrir 16 ára og eldri, 500 kr. fyrir börn á grunnskólaaldri (aðrir en sýnendur) og frítt fyrir þá sem yngri eru.
Allur ágóði fer í sjóð sem greiðir niður lyftugjöld í skíðaferð og einnig fá 7. bekkingar niðurgreiðslu þegar þeir fara í skólabúðirnar á Reykjum.
Athugið að ekki er posi á staðnum.
Veitingar eru innifaldar í verðinu og sjoppa verður á staðnum.
Allir eru hjartanlega velkomnir!
Nemendur 5.-7. bekkjar Hrafnagilsskóla.

 


Léttmessa í Grundarkirkju 3. mars kl. 20:00
Verið velkomin í Grundarkirkju sunnudagskvöldið 3. mars kl. 20:00. Messa á léttu nótunum með altarisgöngu. Kirkjukór Grundarsóknar syngur undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar organista. Prestur Jóhanna Gísladóttir og meðhjálpari Hjörtur Haraldsson.
Fermingarbörn vorsins sérstaklega velkomin ásamt fjölskyldum sínum.
Örstuttur foreldrafundur eftir messuna.

 


Frá Félagi eldri borgara í Eyjafjarðarsveit
Aðalfundur félagsins verður haldinn í Félagsborg laugardaginn 9. mars og hefst kl. 11:00. Venjuleg aðalfundarstörf. Á vegum félagsins verður boðið upp á súpu og brauð að loknum fundi. Vonumst til að sjá ykkur sem flest.
Stjórnin.

 


Gaukshreiðrið hjá Freyvangsleikhúsinu
Miðarnir rjúka út svo tryggið ykkur miða sem fyrst.
Sýningar næstu helgar komnar í sölu á tix.is og í síma 857-5598.
Freyvangsleikhúsið.

Getum við bætt efni síðunnar?